top of page
Writer's pictureXD Hveragerði

Reynsla og forysta skiptir máli

Síðustu fjögur ár hef ég fengið tækifæri til að starfa í þágu bæjarbúa Hveragerðisbæjar sem bæjarfulltrúi í meirihluta D-listans og einnig á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Suðurlandi, í stjórn Samtaka Sunnlenskra Sveitarfélaga. Þessi fjögur ár hafa verið fljót að líða og þegar maður lítur til baka sér maður þann mikla árangur sem við í D-listanum höfum náð síðustu ár, á heldur betur krefjandi tímum. Því er frábært að sjá hvernig öll stefnumál okkar hjá D-listanum hafa orðið að veruleika eða eru í farvatninu, ásamt miklu fleiri verkefnum sem við höfum orðið að glíma við en enginn gat séð fyrir.

Uppbygging innviða í takt við fjölgun íbúa

Frá árinu 2018 og til dagsins í dag hefur íbúum Hveragerðisbæjar fjölgað um 483 íbúa sem er 18% fjölgun. Á sama tíma og íbúafjölgun hefur verið svo mikil og hröð höfum við gætt að því að uppbygging innviða sé í takt við mikinn fjölda nýrra íbúa. Nýjar íbúðagötur hafa verið lagðar og lóðaframboð fyrir atvinnulóðir hefur verið aukið. Þannig hefur skapast fjöldi nýrra starfa og atvinnutækifæra í bænum sem Hvergerðingar hafa getað nýtt sér á einhvern hátt. Til að mæta auknum fjölda barnafjölskyldna sem hafa ákveðið að flytjast til Hveragerðis höfum við byggt við Grunnskólann í Hveragerði 6 nýjar kennslustofur og þar að auki var bætt við tveimur nýjum deildum á Leikskólanum Óskaland. Við stefnum síðan áfram að uppbyggingu nýrra íbúða- og atvinnusvæða, áframhaldandi uppbyggingu skólamannvirkja og ýmsa uppbyggingu íþróttamannvirkja og menningarlífs.

Ánægðustu íbúar landsins

Íbúar Hveragerðisbæjar skipa sér í efsta sæti íbúa landsins þegar spurt er um heildaránægju íbúa með sveitarfélagið sem stað til þess að búa á, en þetta er niðurstaða þjónustukönnunar sveitarfélaga á vegum Gallup. Undanfarin ár hafa Hvergerðingar vermt efstu sæti þessarar könnunar í nær öllum flokkum sem spurt er um. Þegar maður hugsar þetta síðan þá þarf í raun enga skoðunarkönnun til að sjá þetta, það er nóg að ræða við íbúa bæjarins og atvinnurekendur til að heyra hversu ánægð þau eru með Hveragerðisbæ sem stað til að búa á og reka fyrirtæki. Á hverjum degi og sérstaklega um helgar fjölgar síðan íbúum bæjarins svo um munar þegar allir þeir gististaðir sem við höfum uppá að bjóða fyllast af innlendum sem erlendum ferðamönnum. Nær hvert sem litið er má sjá ánægða ferðamenn njóta allra þeirra gisti-, veitingastaða og verslana sem hafa byggst upp í Hveragerði á undanförnum árum. Þegar maður síðan hittir vinnufélaga eða kunningja sem hafa dvalist í Hveragerði þá hafa allir eitthvað um það að segja hversu frábært þeim fannst að koma til Hveragerðis og svo enda flestir á því að segja að þau gætu bara jafnvel hugsað sér að flytjast til Hveragerðis.

Vinnum áfram saman

Fulltrúum D-listans hefur verið treyst til forystu í Hveragerði um árabil. Sú forysta hefur verið farsæl. Á þessum árum hefur Hveragerði færst í hóp vinsælustu sveitarfélaga landsins. Eitt mikilvægasta verkefni sveitarstjórnar er að vel sé haldið utan um sameiginlega fjármuni bæjarbúa. Hvergerðingar hafa getað treyst því að svo sé og jafnframt hafa þeir getað treyst því að þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í hafi verið skynsamlegar og til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Á óvissutímum eins og þeim sem við lifum við í dag, þar sem verðbólga er komin langt yfir öll markmið, og óvissa er um marga aðra þætti er snúa að rekstri sveitarfélaga er mikilvægt að áfram sé vel haldið á fjármálum bæjarins og að tryggt sé að rekstur bæjarins sé í föstum skorðum. Reynslan og forysta skiptir máli og því viljum við vinna áfram saman við að gera bæinn okkar enn betri.

7 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page