Elsta barn á biðlista eins árs í desember 2021
Fái D-listinn stunging til áframhaldandi starfa í Hveragerði munu foreldrar leikskólabarna ekki lengur þurfa að greiða fyrir þjónustu leikskólanna í desember. Er þetta hugsað sem fyrsta skrefið í átt að enn betra umhverfi barnafjölskyldna í bæjarfélaginu. Nú þegar er fyrirkomulagið þannig að skólahópur, elsti hópur leikskólastigs, fær gjaldfrjálsa fjóra tíma á dag. Fjöldi barna nýtur síðan afsláttar, annað hvort systkina, námsmanna eða sem einstætt foreldri.
Rétt er að það komi fram hér að leikskólagjöld í Hveragerði eru með svipuðum hætti og í flestum nágrannasveitarfélögum okkar eins og hægt er að kynna sér á heimasíðum sveitarfélaganna. Með gjaldfrjálsum leikskóla og afslætti af gjaldi elstu barnanna er enn komið til móts við þarfir barnafjölskyldna í bæjarfélaginu.
Að sjálfsögðu fögnum við frambjóðendur D-listans tillögu forsætisráðherra landsins um að leikskólaganga barna í landinu verði gjaldfrjáls. Til þess að það verði að veruleika þá þarf ríkisstjórnin að bregðast við með fjárframlagi til sveitarfélaganna. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert landsbyggðar sveitarfélag getur staðið undir rekstri gjaldfrjáls leikskóla án framlagsins. Það er einmitt þess vegna sem við tökum ábyrga ákvörðun um að veita barnafjölskyldum gjaldfrjálsan leikskóla í desembermánuði og munum síðan áfram berjast fyrir því að ríkið mæti þeim kostnaði sem felst í hugmyndum um gjaldfrjálsan leikskóla.
Fullnýtum pláss leikskólanna
Inntaka barna í leikskóla fer að jafnaði fram að hausti, síðsumars. Við síðustu inntöku óskuðu stjórnendur og starfsmenn leikskólanna eftir því að hafa hreinar aldursskiptar deildir. Við því var brugðist á jákvæðan hátt. Þetta fyrirkomulag hafði hins vegar þær afleiðingar að ekki eru öll pláss fullnýtt og álag á milli deilda er mismunandi. Það er því ljóst að við verðum að hverfa aftur í fyrra fyrirkomulag þar sem pláss leikskólanna eru ávallt fullnýtt enda því miður ekki hægt að búa við það að pláss séu laus á eldri deildum en yngstu bönin á biðlista. Sú ákvörðun er tekin með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.
Elsta barn á biðlista eins árs í desember 2021
Núna er ekkert barn á biðlistanum, sem er flutt í Hveragerði og varð eins árs fyrir 1. desember 2021 og verður það að teljast harla gott miðað við ástand leikskólamála sem víða í kringum okkur er staðreynd. Með því að hraða eins og kostur er byggingu nýs leikskóla og með bráðabirgðalausn þar til hann opnar getum við boðið þeim börnum sem hér búa og hingað flytja á næstu misserum leikskólapláss. Við hjá D-listanum höfum ávallt lagt ríka áherslu á að bjóða sem allra bestu þjónustu, barnafjölskyldum og öðrum. Því munum við halda áfram fáum við til þess stuðning ykkar. Vinnum áfram saman.
Alda Pálsdóttir skipar 2. sæti á D-listanum í Hveragerði
Commenti