top of page
  • Writer's pictureXD Hveragerði

Framtíð Hamarshallarinnar

Viðsnúningur nýs meirihluta O-lista og Framsóknar í málefnum Hamarshallarinnar er með hreinum ólíkindum og ekki nema von að fólk og félagasamtök spyrji hvaða leikur hafi eiginlega verið í gangi í aðdraganda kosninga í Hveragerði.

Var gagnrýni á Hamarshöllina eingöngu sett fram til að slá ryki í augu kjósenda og til að þyrla upp moldviðri í eigin þágu með það að markmiði að vinna kosningar? Skyndilega er það orðið afar slæmt að pöntun á dúk sé í byrjunarfasa og ekki sé búið að klára samningagerð þannig að hægt sé að byggja upp Hamarshöllina að nýju strax í haust. Er þessi málflutningur með öllu óskiljanlegur enda í engu samræmi við það sem þessir sömu aðilar sögðu fyrir kosningar.

Það var öllum ljóst að O-listinn og Framsókn voru mjög á móti loftborna íþróttahúsinu okkar og að það væri ekki með þeirra vilja að Hamarshöllin yrði endurreist. Þann 13. apríl, 4 vikum fyrir kjördag, var samþykkt í bæjarstjórn með atkvæðum þáverandi meirihluta D-listans að endurreisa Hamarshöllina. Skrifað var undir tilboð þann 26. apríl og sent til Duol og þeir settu í kjölfarið vinnu af stað, en þá átti eftir að ganga frá endanlegum samningi. Í kjölfar þessarar umræðu fór í gang undirskriftasöfnun meðal íbúa þar sem óskað var borgarafundar og mikill hiti var í umræðunni um málið. Íbúafundur var síðan haldinn örfáum dögum fyrir kjördag 14. maí, þar sem engum gat dulist hversu mjög fulltrúar O-listans og Framsóknar var á móti kaupum á nýjum dúk og endurreisn Hamarshallarinnar.

Því taldi þáverandi meirihluti ráðlegast að bíða með að undirrita samninginn þar til niðurstaða kosninga lægi fyrir. Ef að D-listinn hefði unnið kosningar hefði samningur þegar í stað verið undirritaður en ef að þáverandi minnihluti bæri sigur úr býtum væri hann með öllum óbundinn af fyrri ákvörðun og gæti þegar í stað sett í gang vinnu við aðrar lausnir sem þau hafa haft hugmyndir um. Þetta myndu einhverjir kalla að hlustað væri á raddir íbúa og að tekið hefði verið tillit til þeirra sjónarmiða sem hvað háværust voru í umræðunni.

Sérfræðingar Verkís skiluðu skýrslu til bæjarstjórnar varðandi þá valkosti sem vænlegastir voru í þeirri stöðu sem bæjarfélagið var í eftir að dúkur Hamarshallarinnar rifnaði í febrúarlok. Þáverandi minnihluti véfengir enn niðurstöðu þeirrar skýrslu og telur sig geta leyst aðstöðu til íþróttaiðkunar með öðrum hætti. Nú mun koma í ljós hvort að sá málflutningur sé réttur.

Fulltrúar D-listans hafa ávallt verið þeirrar skoðunar að réttast væri að kaupa nýjan dúk og endurreisa Hamarshöllina í sömu mynd og áður. Aðrir voru ekki sammála þeirri skoðun. Sá hópur sigraði kosningarnar og þarf nú að takast á við afleiðingar þess að hafa gert úlfalda úr mýflugu í málinu og þar með mögulega komið í veg fyrir að íþróttir verði stundaðar í Hveragerði með þeim hætti sem við höfum vanist undanfarin ár. Þessi staða er ekki afleiðing þess að samningur var ekki undirritaður fyrir kosningar. Þessi staða er afleiðing ákvörðunarfælni fulltrúa O-listans og Framsóknar og andstöðu þeirra við nýtt loftborið íþróttahús – um það verður ekki deilt.


Alda Pálsdóttir

Friðrik Sigurbjörnsson

Bæjarfulltrúar D-listans

607 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page