Það er okkur bæjarfulltrúum D-listans með öllu óskiljanlegt hvers vegna ekki er búið að upplýsa íbúa Hveragerðisbæjar um ákvörðun varðandi uppbyggingu Hamarshallarinnar, en á fundi bæjarstjórnar þann 7. júní(fyrir 3 vikum) var sagt að upplýsingar myndu liggja fyrir á næstu dögum og að þá yrði hægt að koma málinu áfram. Nú eru liðnir 47 dagar frá kjördegi og það virðist vera sem svo að enn sé verið að velta fyrir sér hver næstu skref eiga að vera. Það eru 78 dagar frá því að fulltrúar O-lista og Framsóknar lögðu fram verðhugmynd að köldu stálgrindarhúsi og bókun á fundi bæjarstjórnar að óábyrgt væri að taka ákvörðun um að endurreisa loftborna Hamarshöll að nýju og í kjölfarið fylgdu greinaskrif frá frambjóðendum þeirra sem lýstu því yfir að þau væru á móti loftborinni íþróttahöll. Vinna sérfræðinga Verkís var véfengd ásamt því að fullyrt var að ekkert samráð hefði verið við íþróttafélagið Hamar. Báðar fullyrðingar eru rógburður. Skýrsla Verkís var unnin af fagmönnum, með menntun og margra áratuga reynslu af byggingum íþróttamannvirkja. Eins hafði verið samráð við aðalstjórn Hamars um verkefnið frá því að Hamarshöllin féll þann 22. febrúar.
Tími er peningar
Ákvörðunarfælni og samráðsleysi fulltrúa O-listans og Framsóknar hefur valdið því að mikil óvissa ríkir nú um íþróttastarf næsta hausts og það liggur ekki fyrir hvernig eigi að koma öllum íþróttagreinum fyrir í inniaðstöðu. Það er ljóst að Íþróttahúsið við Skólamörk mun ekki anna þessum fjölda iðkenda þrátt fyrir velvilja starfsfólks og íþróttafélagsins Hamars. Fyrir utan að grunnskólinn hefur forgang að íþróttahúsinu og hefur þegar tekið mikið af þeim tímum sem eru í boði. Þá erum við ekki farin að ræða um mótahald sem gefur af sér að keppendur og gestir þeirra staldra hér við og njóta menningar, matar, hvílu og verslunar. Allt er þetta þáttur í uppbyggingu okkar hér í Hveragerði.
Loftborin Hamarshöll er enn skynsamasta leiðin
Afstaða fulltrúa D-listans er enn sú að loftborin íþróttahöll sé skynsamasta og hagkvæmasta leiðin. Sé tekið tillit til þess kostnaðarmats sem byggingaverkfræðingur á vegum Sjóvá lagði fram og þeirra fyrstu tölu tryggingabóta sem liggja fyrir sést að kostnaður Hveragerðisbæjar við að reisa nýja loftborna íþróttahöll gæti verið um 60.692.064kr.. Þessar vikur sem fulltrúar O-lista og Framsóknar hafa tafið uppbyggingu íþróttamannvirkja muna verða okkur dýrir og þá sérstaklega þegar horft er til iðkenda, þeirra sem eru ungir, fullir af orku og hafa ekki íþróttaaðstöðu innan bæjarfélagsins á komandi vetri. Þessu hefðu fulltrúar O-lista og Framsóknar geta afstýrt með því að ganga strax frá undirskrift samnings um kaup á nýjum dúk frá Duol, enda hafði tilboðið verið samþykkt og var pöntunin komin af stað. Við erum þess fullviss að vandinn liggi einmitt í því að loftborin Hamarshöll er skynsamasta leiðin fyrir okkur í Hveragerði, ákvörðun sem er tekin með tilliti til fjármagns(skattpeninga) og tíma en yrði um leið fyrsta svikna kosningaloforð O-lista og Framsóknar til kjósenda sinna.
Bæjarfulltrúar D- listans í Hveragerði
Friðrik Sigurbjörnsson
Alda Pálsdóttir
Greinin birtist í Dagskránni 30. júní 2022
Comments