Stefnuskrá (PDF)

REYNSLA-FORYSTA-FRAMTÍÐARSÝN

D-listinn kynnir hér helstu stefnumál sín fyrir sveitarstjórnarkosningar sem haldnar verða þann 31. maí næstkomandi. Stefnuskráin er afrakstur vinnu fjölmargra einstaklinga sem vonandi sjá þar fingraför sín víða.

Það verður þó aldrei mögulegt að gera grein fyrir öllu því sem gert verður á næstu árum. Í vor eiga íbúar að velja til forystu þá einstaklinga sem þeir treysta best til að leiða bæjarfélagið hvað sem á dynur og taka réttar ákvarðanir um málefni sem enginn getur í dag ímyndað sér hver verða. Kjörtímabilið sem nú er að líða hefur einkennst af sátt og einingu sem vakið hefur mikla og jákvæða athygli. Sátt sem þessi er dýrmæt og sýnir að bæjarfulltrúar setja hagsmuni bæjarbúa í fyrsta sæti.

Umfjöllun um Hveragerði hefur verið jákvæð og Hvergerðingar eru almennt stoltir af bænum sínum.

Bæjarbragur sem þessi kemur ekki af sjálfu sér heldur er hann uppskera mikillar vinnu og góðs samstarfs allra bæjarbúa.

Unnið hefur verið ötullega að þeim verkum sem stefnt var að fyrir fjórum árum og það er ánægjulegt að geta litið til baka og séð að árangri hefur verið náð á fjölmörgum sviðum. Bygging Hamarshallarinnar er stærsta einstaka framkvæmd kjörtímabilsins. Þar voru ekki allir sammála og er það skiljanlegt þar sem um algjöra nýjung á landinu var að ræða. Þess mun ánægjulegra er að sjá hversu vel nýtt höllin er og hversu mikil ánægja ríkir um þá starfsemi sem þar fer fram. Það þurfti kjark til að taka jafn umdeilda ákvörðun og það þurfti þor til að fylgja henni eftir. Þann kjark og þor höfðu bæjarfulltrúar D-listans. Þennan sama kjark hafa bæjarfulltrúar D-listans nýtt til baráttu fyrir hagsmunum Hvergerðinga, til dæmis um vegbætur og gegn virkjunum. Þeirri baráttu munum við aldrei hætta. Við munum ávallt vinna að hagsmunum Hvergerðinga. Bæjarbúar þekkja verk okkar og vita að í hópi frambjóðenda býr ómetanleg reynsla og þekking auk viljans til að gera sífellt betur.

Við óskum eftir áframhaldandi umboði til að fylgja eftir þeim verkum sem hafin eru og hefja þau sem bíða í krafti skýrrar framtíðarsýnar.

Setjið X við D á kjördag þann 31. maí næstkomandi.

Forysta í mikilvægum málum

Bæjarfulltrúar D-listans hafa barist ötullega gegn þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem virkjanir á Hengilssvæðinu hafa valdið. Sú barátta skilaði því að Bitra er nú í verndarflokki, Orkuveitan varð að flýta áformum um eyðingu brennisteinsvetnis og reglugerð var sett sem takmarkar verulega leyfileg mörk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Við munum áfram setja hagsmuni Hvergerðinga í öndvegi í þessu máli.

Bæjarfulltrúar D-listans hafa barist fyrir auknu umferðaröryggi á Suðurlandsvegi og munum við aldrei gefa eftir í þeirri baráttu.

D-listinn hefur lagt áherslu á fjölgun hjúkrunarrýma í Hveragerði. Unnið verður í samræmi við það markmið að íbúar geti áfram búið í heimabyggð þrátt fyrir háan aldur og veikindi.

Mikilvægt skref var stigið þegar samstarf hófst við Strætó bs. og þar með voru tíðari ferðir til höfuðborgarinnar tryggðar á góðum kjörum. Hefur þetta reynst mikilvæg samgöngubót fyrir þá fjölmörgu sem þurfa að sækja til höfuðborgarsvæðisins.

Sameinuð velferðar- og sérfræðiþjónusta grunn- og leikskóla í samvinnu sveitarfélaga í Árnesþingi utan Árborgar hefur orðið að veruleika en þar skipti aðkoma bæjarfulltrúa D-listans miklu máli. Í kjölfarið býður Hveragerðisbær nú gjaldfrjálsa þjónustu talmeinafræðings sem leggur sérstaka áherslu á snemmtæka íhlutun.

Framkvæmdir til framtíðar

Í viðbyggingu við grunnskólann sem rísa mun fyrri hluta næsta kjörtímabils er gert ráð fyrir stórbættri aðstöðu mötuneytis. Á kjörtímabilinu verður einnig leitast við að bæta aðstöðu til sérkennslu og fyrir sérfræðiþjónustu innan skólans.

Unnið verður áfram að þeim metnaðarfullu hugmyndum sem settar hafa verið fram um uppbyggingu á heilsulind í Sundlauginni Laugaskarði.

Stórátak hefur verið gert varðandi frágang á malargötum í íbúðahverfum. Á næsta kjörtímabili verður það verk klárað með frágangi á botnlanga við Heiðmörk og á götustubbi neðan sundlaugar. Vegurinn inn að hesthúsahverfi verður lagður bundnu slitlagi, hugað að lýsingu og úrbætur gerðar á bílaplani við Hamarshöll. Jafnframt verða eldri götur endurnýjaðar þar sem þörf er á.

Deiliskipulag á Fossflöt er á lokastigi. Þar eru settar fram metnaðarfullar hugmyndir um kaffihús, göngustíga og útsýnispall við Varmá. Stefnt er að því að þessar framkvæmdir verði að veruleika á næsta kjörtímabili.

Stefnt er að þéttingu byggðar í miðbænum þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt og iðandi mannlíf.

D-listinn vill bæta aðgengi allra meðal annars með því að gera úrbætur á Sundlauginni Laugaskarði, tryggja auðvelda umferð með því að taka niður gangstéttakanta og hvetja rekstraraðila til að gera úrbætur á þessu sviði.

Áfram verður unnið að endurbótum á leikvöllum og leiktækjum.

Öflugt atvinnulíf

Unnið verður áfram að gerð atvinnustefnu Hveragerðisbæjar í samvinnu við atvinnuráðgjafa SASS.

Hlúð verður vel að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru og þannig stuðlað að eflingu þeirra.

Deiliskipulag fyrir iðnaðar- og athafnasvæði neðan Suðurlandsvegar verður klárað hratt og vel.

Leitað verður leiða til að laða að frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki en með tilkomu ljósleiðara í bænum verður slíkt auðveldara.

Háskólasamfélagið verður virkjað til þess að vinna verkefni og rannsóknir í Hveragerði.

Leitað verður leiða til að rekstraraðilar í bænum geti kynnt þjónustu sem er í boði með góðum hætti.

Framtíð í ferðaþjónustu

Mörkuð verður ferðamálastefna fyrir Hveragerði í samstarfi við hagsmunaaðila.

Hveragerði er anddyri Suðurlands og vinna ber markvisst í samræmi við þá staðreynd við uppbyggingu atvinnu- og ferðaþjónustu í bæjarfélaginu. Lögð verður rík áhersla á að Hveragerði verði áfangastaður sífellt fleiri ferðamanna.

Merkja þarf helstu byggingar og stofnanir bæjarins ásamt því að merkja bílastæði bæði fyrir einka- og hópferðabíla. Jafnframt verður gert átak í leiðamerkingum í bæjarfélaginu.

Unnið verður í samræmi við nýtt deiliskipulag á Vorsabæjarvöllum. Þar verður gert nýtt veglegt tjaldsvæði og öll aðkoma að upphafi gönguleiðarinnar inn í Reykjadal verður bætt.

Kannaðir verða möguleikar á að ferðamenn geti fengið að upplifa ræktun í gróðurhúsum, fengið að smakka, jafnvel týna sjálfir og kaupa afurðir úr heimabyggð.

Unnið verður að því að gera Hveragarðinn að þeirri ferðamannaparadís sem hann hefur alla burði til að verða. Leitað verður leiða til að útbúa goshver sem styrkt getur ímynd bæjarins.

Forysta í skólastarfi

Áfram verður rekin metnaðarfull starfsemi í grunn- og leikskólum bæjarins.

Áfram verður unnið að því markmiði að yngstu börnin ljúki skólastarfi og tómstundum á sama tíma og hefðbundnum vinnutíma foreldra lýkur.

Átak hefur verið gert til að endurbæta tölvubúnað í grunnskólanum með það að markmiði að skólinn verði í fararbroddi í upplýsingatækni. Þessum endurbótum verður haldið áfram á næsta kjörtímabili auk þess sem fjármunir verða settir til endurmenntunar kennara á þessu sviði.

Með fjölgun yngstu barna er nauðsynlegt að skoða valkosti sem tryggt geti að börn komist í leikskóla frá 12 mánaða aldri. Kannað verður hvort vilji sé til að bjóða upp á það sem valkost að börn geti hafið nám í grunnskóla við 5 ára aldur.

Nýr leikskóli mun verða byggður um leið og þörf krefur. Kannaðir verða möguleikar á samstarfi við einkaaðila um nýtt rekstrarform.

Starfsmenn leikskóla verða hvattir til að afla sér menntunar á því sviði og áfram verða þeir styrktir til fjarnáms í leikskólakennarafræðum.

Sett verður upp þráðlaust net í leikskólum bæjarins og jafnframt verður unnið að því að bæta tölvukost þeirra verulega.

Öflugt ungmennastarf

Með tilkomu nýs húsnæðis fyrir frístundaskólann gefast möguleikar á fjölbreyttari starfsemi. Leitast verður við að samþætta frístundaskólann og félagsmiðstöðina. Unnið verður að því að tengja starfsemi ungmennaráðs við félagsmiðstöð og virkja ungmenni til áhrifa og ábyrgðar.

Forysta í öldrunarmálum

Öldungaráð verður stofnað í samvinnu við Félag eldri borgara með það að markmiði að tryggja hagsmuni eldri íbúa.

Áfram verður stutt myndarlega við starfsemi Félags eldri borgara og þeim tryggð góð aðstaða til íþrótta- og tómstundastarfs.

Boðið verður upp á tölvukennslu fyrir eldri borgara.

Iðandi íþróttir

Með frístundastyrkjum til barna og ungmenna verður stuðlað markvisst að þátttöku þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi.

Aðstaða til útivistar og almenningsíþrótta verður efld enn frekar með fleiri göngustígum og jafnframt verða íbúar hvattir til hjólreiða.

Mikilvægt er að lýsing og fleiri bekkir verði settir upp meðfram mest nýttu göngustígunum.

Haldið verður áfram uppbyggingu á stígnum inn Reykjadal í góðri samvinnu við Ölfusinga og hagsmunaaðila. Þar verður sérstaklega hugað að þörfum gangandi og hjólreiðafólks.

Opnunartími Sundlaugarinnar Laugaskarði verður endurskoðaður.

Metnaðarfull menning

Unnið verður að því að tengja menningarstarf betur við leik- og grunnskóla bæjarins og virkja jafnframt alla aldurshópa til þátttöku í fjölbreyttu menningarstarfi.

Sköpuð verður aðstaða fyrir flóamarkað að enskri fyrirmynd sem haldnir verða reglulega yfir árið.

Stuðlað verður að enn öflugra tónlistarlífi meðal annars með samstarfi við Tónlistarskóla Árnesinga, Tónsmiðju Suðurlands og annað tónlistarfólk.

Hátíðir bæjarins draga til sín fjölda gesta og mun bæjarfélagið því standa fyrir árlegri garðyrkju- og blómasýningu „Blóm í bæ“ og veglegum hátíðahöldum á Blómstrandi dögum.

Forysta um bætt umhverfi

Hluti af því að búa í Hveragerði er að vera meðvitaður um umhverfi sitt. Staðið verður fyrir umhverfisátaki meðal bæjarbúa með aðkomu bæjarfélagsins.

Áhersla verður lögð á gróðursetningu berjarunna og ávaxtatrjáa þar sem bæjarbúar geta notið ávaxtanna. Bæjarbúar verða einnig hvattir til grænmetisræktunar með námskeiðahaldi.

Unnið verður markvisst að því að auka vitund barna og ungmenna um ræktun og hollustu, meðal annars með góðu aðgengi að skólagörðum. Jafnframt verður íbúum áfram gefinn kostur á að fá leigða aðstöðu til matjurtaræktunar.

Rík áhersla verður lögð á að gera aðkomuna að Hveragerði meira aðlaðandi.

Unnið verður áfram að því að bæta útlit opinna svæða og hvetja íbúa til að nota þau til dæmis með uppsetningu hverfisgrilla.

Trjágöng og göngustígur verða sett meðfram Þelamörk vestan Breiðumerkur.

Valið verður einkennisblóm sem táknmynd fyrir bæinn okkar sem hægt er að hafa í hverjum garði.

Öryggi alltaf !

Hraðahindranir í bænum hafa verið settar upp á hættulegum stöðum að beiðni íbúa. Mögulegar úrbætur eða aðrir valkostir sem náð geta sama markmiði við að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda verða skoðaðir.

Unnið verður að því að auka öryggi við gatnamót Grænumerkur og Suðurlandsvegar.

Áfram verður stutt með myndarlegum hætti við mikilvægt starf Hjálparsveitar skáta í Hveragerði.

Fjármál í föstum skorðum

Undanfarin ár hefur meirihluti D-listans í bæjarstjórn orðið að takast á við erfiðar aðstæður í kringum efnahagshrunið en á sama tíma var farið í ýmsar þarfar framkvæmdir.
Til þess hefur verið beitt talsverðu aðhaldi en jafnframt verið horft fram á veginn og byggt upp til framtíðar. Þekking, áræði og geta til að taka ákvarðanir var það sem þurfti.

Fjárhagur Hveragerðis er traustur og bæjarfélagið stendur vel undir skuldbindingum. Skuldahlutfallið núna er vel undir viðmiðunarmörkum samkvæmt reglum. Við treystum okkur til áframhaldandi uppbyggingar, uppbyggingar sem verður íbúum Hveragerðis til heilla.

Sú stefnuskrá sem hér er sett fram er afrakstur vinnu fjölmargra Hvergerðinga. Hún er metnaðarfull en jafnframt raunsæ og vel framkvæmanleg fjárhagslega.

Þekking og reynsla

D-listinn býður bæjarbúum áfram skýran valkost um bæjarstjóra þar sem Aldís Hafsteinsdóttir skipar baráttusæti listans.

Við bjóðum alla velkomna á kosningaskrifstofu okkar, sem opnar þann 10. maí nk. í húsnæði Leikfélags Hveragerðis að Austurmörk 23.

ÁFRAM HVERAGERÐI…