Á að sameinast öðru sveitarfélagi?

Á fundi bæjarstjórnar þann 13. mars síðastliðinn var skipaður starfshópur til að koma með tillögur að spurningum í ráðgefandi skoðanakönnun, skoðanakönnun sem snýr að hugsanlegri sameiningu Hveragerðisbæjar við annað/önnur sveitarfélög. Íbúar bæjarins fá svo að svara þessari skoðanakönnun samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum. Starfshópurinn fundaði tvisvar og fór yfir hina ýmsu sameiningakosti og horfði vítt yfir, rætt var um sameiningu við m.a. sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Fljótlega var þó komist að þeirri niðurstöðu að horfa aðallega til sveitarfélaga á Suðurlandi í ljósi þess samstarfs sem ríkir og hefur ríkt milli sveitarfélaga á því svæði í m.a. sorpmálum, skólamálum, velferðaþjónustu, héraðsnefndum og í gegnum SASS svo eitthvað sé nefnt. Sameiningakostirnir sem hópurinn valdi eru sameining Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss, sameining vesturhluta Árnessýslu í eitt sveitarfélag, sameining Árnessýslu utan Sveitarfélagsins Árborgar í eitt sveitarfélag,  sameining allra sveitarfélaga í Árnessýslu í eitt sveitarfélag og svo sameining allra sveitarfélaga á Suðurlandi í eitt sveitarfélag. Þess ber þó að geta að í þessari skoðanakönnun geta íbúar bæjarins einnig sagt nei við hugsanlegri sameiningu séu þeir á þeirri skoðun.

Fljótlega eftir að starfshópurinn hafði lokið vinnu við að finna hvaða sameiningakostir skyldu vera lagðir fyrir, fól starfshópurinn bæjarstjóra að senda póst til allra sveitarfélaga í Árnessýslu þar sem þeim var kynnt þessi áform bæjarins um að leggja fyrir ráðgefandi skoðanakönnun samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum. Af þeim átta sveitarfélögum sem eru í Árnessýslu hafa fimm þeirra, að meðtöldu Hveragerðisbæ, samþykkt að leggja svipaða skoðanakönnun fyrir. Önnur hafa lagt málið fram til kynningar. Það verður því ekki bara spennandi að fá að sjá niðurstöður úr sveitarstjórnarkosningunum þann 31. maí heldur verður einnig spennandi og fróðlegt að fá að sjá niðurstöður skoðanakönnunarinnar.

 

Friðrik Sigurbjörnsson

Formaður starfshópsins og Varabæjarfulltrúi

Share This Post

About Author: Friðrik Sigurbjörnsson