Betri framtíð í Hveragerði

Undirbúningur fyrir framtíðina er eitt af megin verkefnum hverrar sveitarstjórnar. Með áætlunum og skipulagningu eru lagðar línur í hverfulum heimi. Línur sem byggðar eru á þeirri bestu þekkingu sem völ er á en ekki síður þeirri reynslu og sýn sem sveitarstjórnarfólk tekur með sér í starfið.

 

Hér í Hveragerði hefur að undanförnu verið unnið að mörkun framtíðarsýnar og stefnumótunar um það hvernig við sjáum bæjarfélagið þróast og hvaða áherslur ber að leggja til framtíðar litið. Með það að megin markmiði að Hveragerði verði enn betra bæjarfélag fyrir núverandi íbúa og að aðrir sjái bæjarfélagið sem góðan kost til búsetu.

 

Bæjarráð hefur haft veg og vanda af vinnunni en á fund þess hafa komið margir góðir gestir sem veitt hafa góð ráð
og miðlað af reynslu sinni. Á vormánuðum mun liggja fyrir niðurstaða þessarar vinnu.

 

Húsbyggjendur horfa til Hveragerðis

Nýlega samþykkt tillaga um lækkun gatnagerðargjalda um 50% og niðurfellingu gjalds fyrir byggingarrétt er einn angi þessarar sýnar.  Gildir samþykktin vegna allra lóða sem úthlutað er árið 2014. Af viðtökunum má vera ljóst að húsbyggjendur gera sér grein fyrir því að á árinu 2014 má spara milljónir við byggingaframkvæmdir í Hveragerði.

 

Áfram mun verða unnið eftir þeirri sýn að gera Hveragerði að enn betra samfélagi. Á undanförnum árum hefur ýmislegt áunnist í þeirri vinnu.
Eitt af betri dæmum um það er Hamarshöllin en með byggingu hennar er horft til framtíðar. Mannvirkið hefur reynst mikil lyftistöng fyrir íþróttalíf í Hveragerði og er ekki að efa að slíkt mun hafa áhrif til framtíðar.

 

Vinna sveitarstjórnarmanna að stefnumörkun til framtíðar mun vonandi skila þeim árangri að íbúar verði enn ánægðari með bæinn sinn. Þannig fjölgar bæjarbúum og samfélagið allt verður sterkara en ella.

 

Aldís Hafsteinsdóttir

Bæjarstjóri

Share This Post

About Author: admin